Glitnir HoldCo hyggst áfrýja dómi Hérðasdóms Reykjavíkur sem felldi úr gildi lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media byggða á gögnum innan úr Glitni.

Í yfirlýsingu frá Stundinni og Reykjavik Media er bent á að ef fallist verði á áfrýjun Glitnis HoldCo í Landsrétti, og síðar mögulega í Hæstarétti, geti farið svo að lögbannið vari fram á næsta ár.

„Ólögmætt lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media um viðskipti forsætisráðherra, fjölskyldu hans og lykilstarfsmanna í hinum gjaldþrota banka hefur nú varað í 122 daga ... Það er óboðlegt íslensku lýðræði að forræði á því að framlengja til lengri tíma bann á tjáningu og upplýsingagjöf til almennings um helsta áhrifafólk samfélagsins liggi hjá þrotabúi gjaldþrota banka,“ segir í yfirlýsingunni.

„Ljóst er að yfirstandandi, ólögmætt lögbann brýtur gegn réttindum íslensks almennings og blaðamanna. Það hefur einnig þær afleiðingar að rýra traust á Íslandi sem lýðræðisríki á meðal vestrænna þjóða. Loks er ljóst að ábyrgðin á skaðlegri virkni kerfisins gagnvart almannahagsmunum liggur hjá þeim stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem setja leikreglurnar á Íslandi. Íslenskir stjórnmálamenn og umbjóðendur þeirra, almenningur, standa frammi fyrir vali um það hvort Ísland fylgi vestrænni lýðræðishefð eða falli í annan flokk,“ segir jafnframt í yfirlýsingu fjölmiðlanna.