Glitnir mun skoða möguleikann á því hvort að hagstætt sé að sækja fjármagn á skuldabréfamarkað í September en hefur ekki þörf á fjármagni að svö stöddu, sagði William Symington, sem stýrir alþjóðafjármögnunarsviði bankans í London, í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Ávöxtunarkrafa skuldabréf bankanna á eftirmarkaði hefur aukist verulega vegna óróa síðustu mánaða og hefur álag á skuldatryggingar bankanna einnig aukist mikið. Það hefur því verið dýrt fyrir bankana að fjármagna sig og sagði Symington Glitni hafa lokið fjármögnun fyrir árið 2006 en að í September þyrfti að fara að huga að því að endurfjármagna um 2,7 milljarða evra, eða 242 milljarða króna.

Symington sagði bankann hafa aðra möguleika til að sækja fjármagn nú, til dæmis einkafjárfestamarkað (e. private placement), en bætti við að fjármögnunarþörfin hefði verið 600 milljónir evra og að bankinn hefði safnað um 1,4 milljörðum evra á árinu. "Við erum í þeirri stöðu nú að geta setið hjá og beðið eftir því að markaðurinn róist," sagði Symington. "Það er skynsamlegt að bíða eftir afkomutölum fyrir annan ársfjórðung, en síðasta uppgjör varð til þess að álag á skuldatryggingar lækkaði."

Álag á skuldatryggingar Glitnis hefur dregist saman hraðar en Kaupþings banka og Landsbanka Íslands og er nú á bilinu 30-40 punktar. Það kostar því 40 þúsund evrur að tryggja sig fyrir vanefndum af 10 milljón evra skuldabréfaeign. Sérfræðingar segja að minna álag á skuldatryggingar Glitnis en hinna bankanna tveggja, sem einnig skiluð methagnaði á fyrsta ársfjórðungi, megi rekja til þess að matsfyrirtækið gaf bankanum lánshæfiseinunina A-mínus þegar neikvæð umræða um bankana stóð sem hæst.