Gengi krónunnar hefur lækkað alla viðskiptadaga vikunnar og nemur veikingin í þessari viku rúmlega 1,5%. Frá áramótum talið hefur krónan veikst um rétt tæplega 4%.

Greiningadeild Glitnis segir í morgunkorni sínu í gærmorgun að gjaldeyrismarkaðir líkt og hlutabréfamarkaðir hafi ekki farið varhluta af þeirri óvissu sem nú ríkir á alþjóðlegum mörkuðum.

„Í árferði líku því sem nú ríkir eru markaðir óvenju viðkvæmir fyrir fréttum og sveiflast í takt við tíðindi sem undir venjulegum kringumstæðum hefðu lítil sem engin áhrif. Þróunin á gengi krónunnar í vikunni ber glögglega merki um þetta,” segir í morgunkorni Glitnis.

Emma Lowsson, sérfræðingur hjá Merill Lynch sagði í viðtali við Bloomberg fréttaveituna í vikunni að krónan væri viðkvæm fyrir vaxandi áhættufælni meðal fjárfesta á heimsmörkuðum og að krónan væri enn of hátt skrifuð miðað við mikinn viðskiptahalla.

„Þrátt fyrir að krónan bregðist við fréttum af þessu tagi til skemmri tíma litið eru það fyrst og fremst alþjóðlegir þættir sem ráða mestu um afdrif krónunnar. Vaxtamunur við helstu viðskiptalönd og lyst fjárfesta á áhættu eru eftir sem áður helstu áhrifaþættir á gengisþróun. Til merkis um þessa þróun má yfirleitt merkja samhljóm í hreyfingum krónunnar og annarra hávaxtamynta,” segir í morgunkorni Glitnis.

Greiningadeild Glitnis telur að krónan muni veikjast hægt fyrri hluta ársins en reiknar aftur á móti með því að Seðlabankinn lækki stýrivexti í vor og þá muni gengi krónunnar gefa hraðar eftir.  Þá spáir Glinir 8% gengislækkun yfir árið.