Norska fjármálafyrirtækið RS Platou ASA tilkynnti í dag að félagið hefði eignast 50,01% hlut í Glitnir Securities AS af starfsmönnum Glitnis.

Í framhaldinu verða félögin sameinuð undir nafninu RS Platou Markets AS.

Þetta kemur fram hjá Dow Jones fréttaveitunni en kaupverðið er ekki gefið upp.

Í frétt Dow Jones kemur fram að hið sameinaða félag muni einbeita sér að alþjóðlegum fjárfestingum.

Peter M. Anker, forstjóri og meðeigandi RS Platou ASA hefur þegar verið kosinn stjórnarformaður hins nýja félags. Hjá félaginu munu starfa um 300 manns víðsvegar um heiminn, en 180 starfsmenn verða staðsettir í Osló.

Helstu fjárfestingasvið félagsins verða olíu og gasframleiðsla, fiskveiðar og fiskeldi svo eitthvað sé nefnt.

Starfsmenn RS Platou Markets AS eiga nú 49,99% hlut í félaginu.