Greiningardeild Glitnis segir það hafi skapast kauptækifæri á íslenska markaðinum vegna lækkana undanfarið í kjölfar erlendra skýrsla um stöðu og horfur í rekstri bankans.

Rekstrarforsendur bankanna sem og annarra stórra fyrirtækja í Kauphöll Íslands hafa ekki breyst sem neinu nemur að undanförnu, þrátt fyrir skýrsluskrif og neikvæða umræðu, segir greiningardeildin.

Viðbrögð á hlutabréfamarkaðinum við erlendu skýrslunum hafa byggst á hræðslu við að framundan sé lækkunarhrina fremur en mati á grunnþáttum í rekstri þessara fyrirtækja, segir greiningardeildin.

Greiningardeild Glitnis gerði verðmöt á Kaupþingi banka og Landsbanka í síðasta mánuði og forsendur þeirra standa óbreyttar.

Aðfinnslur erlendu matfyrirtækjanna hafa einkum snúið að mögulegum erfiðleikum bankanna til að fjármagna sig á erlendum skuldabréfamörkuðum auk þess sem að sett hefur verið út á krosseignarhald íslenskra fyrirtækja og fjárfesta.

Þá hefur einnig verið hamrað á miklu vægi gengishagnaðar af hlutabréfum í rekstri bankanna, þó svo að þeir hafi reyndar ekki verið dregnir í sama dilk í þeirri umræðu.