Glitnir banki gekk í gær, eftir lokun markaða, frá útgáfu víkjandi skuldabréfa í Bandaríkjunum að upphæð 500 milljónir Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 37 milljörðum íslenskra króna, segir í fréttatilkynningu.

?Þessi útgáfa styrkir enn frekar eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu bankans,? segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis.

?Aukinn fjárhagslegur styrkleiki styrkir stöðu bankans til að þola sveiflur. Við erum mjög sátt við bæði kjörin og eftirspurnina ? sem fór langt fram úr væntingum."

Bankinn segir útgáfuna teljast til eiginfjárþáttar B (e. Tier 2) og er til 10 ára með innköllunarákvæði eftir fimm ár af hálfu Glitnis. Kjörin eru 175 punktar yfir ávöxtunarkröfu fimm ára bandarískra ríkisskuldabréfa, sem samsvarar 123 punktum yfir millibankavöxtum (LIBOR).

Kaupendur skuldabréfanna voru að langstærstum hluta bandarískir stofnanafjárfestar, segir Glitnir, og mikil umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum en alls óskuðu fjárfestar eftir að kaupa fyrir 1.400 milljónir bandaríkjadala, sem samsvarar tæpum 104 milljörðum íslenskra króna.

UBS og Credit Suisse höfðu umsjón með útgáfunni.