Greiningardeildir viðskiptabankanna eru nokkuð samstíga um hversu mikil verðbólga mun mælast í september, en Hagstofan birtir nýjustu mælingu á vísitölu neysluverðs í fyrramálið.

Glitnir spáir því að verðbólga hækki um 1,2% í mánuðinum, sem þýðir að verðbólga á ársgrundvelli mun lækka í 14,4% úr 14,5%.

„Margt bendir til þess að verð á fötum og skóm hafi hækkað meira í september en við gerðum ráð fyrir í fyrri spá auk þess sem hækkun þjónustutaxta ýmissa fyrirtækja hækkaði meira í september en við höfðum reiknað með í fyrri spá," segir meðal annars í Morgunkorni Glitnis.

Greiningardeild Landsbankans spáir 1,1% hækkun vísitölu neysluverðs í september.

„Þar sem september í fyrra var mikill verðbólgumánuður sökum útsöluloka, sem dreifast á tvo mánuði nú vegna breyttrar gagnasöfnunar, mun ársverðbólga minnka milli mánaða og verða 14,3% gangi spáin eftir," segir í Vegvísi Landsbankans í dag.

Kaupþing reiknar með að verðbólgan hækki um 1,1% í september og verði þar með 14,3% á ársgrundvelli. Greiningardeild bankans telur að húsnæðisliður hafi ekki mikil áhrif á mælinguna að þessu sinni.

„Hinsvegar má gera ráð fyrir jákvæðum áhrifum af húsnæðisliðnum í heild eins og í síðasta mánuði en þá höfðu til að mynda viðhald og viðgerðir mikil áhrif til hækkunar," segir í Hálf fimm fréttum greiningardeildar Kaupþings.

Allar eru greiningardeildirnar sammála um að verðbólgan sé um það bil að ná hámarki sínu.