Glitnir, áður Íslandsbanki, mun taka þátt í að fjármagna skulsetta yfirtöku (e. leveraged buyout) fjárfestingasjóðsins CapVest á norræna matvælafyrirtækinu Findus AB, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Heildarfjármögnunin nemur 560 milljónum punda, sem samsvarar um 68 milljörðum íslenskra króna.

Ekki hefur komið fram hver stóran hluta Glitnir mun lána til kaupanna en bankinn hefur samþykkt að sölutryggja hluta fjármögnunarinnar, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins. Fjárfestingabankarnir Barclays og Merrill Lynch hafa umsjón með fjármögnuninni, ásamt franska bankanum Societe Generale. Glitnir, HSH Nordbank -- sem er einn þerra banka sem leiddu nýlegt sambankalán Kaupþings banka -- og norræni bankinn Nordea hafa einnig samþykkt að sölutryggja hluta lánsins.

CapVest á breska matvælafyrirtækið Young's og talið er að félagið muni sameina félögin. Bæði Findus og Young's eru viðskiptavinir Glitnis og á bankinn eldri lán frá báðum fyrirtækjum í eignasafni sínu. Glitnir telur matvælageirann vera eitt af sínum helstu sérfræðisviðum.

Findus sérhæfir sig í framleiðslu frosinna matvæla. Heildartekjur félagsins námu um 450 milljónum evra á síðasta ári, sem samsvarar um 38 milljörðum íslenskra króna. CapVest sérhæfir sig yfirtökum á matvælafyrirtækjum og hefur einnig áhuga á að kaupa frystimatvælaeiningu breska fyrirtækisins Candover, sem er til sölu fyrir einn milljarð punda eða 122 milljörðum íslenskra króna. Getgátur eru einnig um að Bakkavör geti haft áhuga á einingunni, sem nefnist Bird's Eye.