Glitnir hefur verið tilnefndur til Sjálfbærniverðlauna Financial Times (e. Sustainable Awards) 2008 í flokknum Sjálfbæri samningur ársins (e. Sustainable Deal of the Year) fyrir þátttöku bankans í verkefni sem tengist þróun og rannsókna á jarðvarmasvæðinu Salton Sea í Kaliforníu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

„Samningurinn endurspeglar sterka stöðu Glitnis á jarðhitamarkaði í Bandaríkjunum stærsti markaður fyrir jarðahita í heiminum. Samkvæmt samningnum veitir Glitnir fyrirtækinu Hudson Ranch I LLC 15 milljón dollara lán, en Hudson Ranch er dótturfélag CHAR LLC í Bandaríkjunum,“ segir í tilkynningunni.

Hudson Ranch virkjunin verður um 50 MW jarðhitavirkjun og er fyrsta orkuvirkjunin á þessu svæði sem þróuð sl. 20 ár sem eingöngu byggir á beislun jarðhita.

Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum: Sjálfbæri banki ársins, Sjálfbæri banki ársins á nýmarkaði, Sjálfbæru bankastarfsmenn ársins, Sjálfbæri samningur ársins og Árangur í kolefnisfjármögnun.

„Þetta er mikilvæg viðurkenning fyrir orkuteymi Glitnis á Íslandi og í Bandaríkjunum og sýnir í hnotskurn hvernig stefna bankans á þessu sviði er byrjuð að skila sér. Glitnir var fyrsta fjármálafyrirtækið til þess bjóða fyrirtækjum aðkomu að slíkum verkefnum með þessum hætti í Bandaríkjunum en nefna má að Glitnir veitti sambærilegt lán til fyrirtækisins Nevada Geothermal á síðasta ári. Bandaríkjamarkaður er mjög áhugaverður fyrir okkur og framundan er töluverða þróun á sviði orkumála þar í landi. Menn leita nýrra lausna og það ljóst að virkjun jarðahita er ein þeirra. Glitnir er með sterka stöðu á þessu sviði í Bandaríkjunum og útlitið er því mjög gott fyrir okkur” segir Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis í tilkynningunni.

Samtals voru 182 verkefni frá 129 fjármálafyrirtækjum í 54 löndum til skoðunar hjá Financial Times og verða verðlaunahafarnir kynntir við hátíðlega athöfn í Lundúnum þann 3. júní nk. þar sem sérfræðingar úr bankageiranum og á sviði sjálfbærrar þróunar verða viðstaddir.

Þau fimm fjármálafyrirtæki sem voru tilnefnd ásamt Glitni eru:

  • Citi, US (fjármögnun strjálbýlishúsnæðis)
  • Merrill Lynch, US (kolefnisjöfnun)
  • Glitnir Bank, Iceland (jarðhitavirkjun)
  • BlueOrchard Finance, Switzerland/Morgan Stanley, US (örlán)
  • Calyon, France (sólarorkuvirkjun)