Glitnir hefur tryggt sér 550 milljóna evra sambankalán, sem samsvarar um 49 milljörðum króna, og er sambankalánið það stærsta í sögu bankans, segir í fréttatilkynningu.

Lánskjörin eru 30 punktar yfir EURIBOR-vöxtum, sem eru millibankavextir í Evrópu, og segir Glitnir að mikil umframeftirspurn hafi verið eftir láninu og í kjölfarið hafi lánið verð stækkað úr 300 milljónum evra.

"Við höfum á undanförnum mánuðum lagt áherslu á að kynna bankann á fjölmörgum mörkuðum og sú vinna hefur gegnið mjög vel. Þetta lán er að mestu frá evrópskum böndkum og það er afar ánægjulegt að sjá það traust sem Glitnir nýtur þar, ssem endurspeglast annars vegar í umframeftirspurn og hins vegar í góðum kjörum," segir Ingvar Ragnarsson, forstöðumaður alþjóðlegrar fjármögnunar Glitnis.

Glitnir segir að 29 bankar frá tólf löndum hafi tekið þátt í láninu, sem leitt var af belgíska bankanum Fortis Bank, norræna bankanum HSH Nordbank, hollenska bankanum ING Bank, franska bankanum Natexis Banques Populaires, breska bankanum Royal Bank of Scotland og japanska bankanum SMBC.