General Motors Co., eigandi SAAB bílaverksmiðjunnar í Svíþjóð, tilkynnti í dag að Saab yrði lokað þar sem engin niðurstaða hafi fengist úr samningaumleitunum um sölu á sænska fyrirtækinu. Kemur þetta fram á vefsíðu The Detroit News.

„Þrátt fyrir einlægan vilja allra sem að málinu hafa komið, þá er það alveg ljóst að viðræður til að reyna að ljúka þessum flóknu samningum tókust það ekki á ásættanlegum tíma. Það hefði þurft að bregðast skjótt við ef tryggja hefði átt rekstur SAAB,” sagði Nick Reilly, yfirmaður GM í Evrópu.

Hrun SAAB hefur áhrif á 3.400 starfsmenn víða um heim og 1.100 söluaðila, þar á meðal 218 í Bandaríkjunum.

„Okkur þykir leitt að okkur tókst ekki að ljúka samningum við Spyker Cars. Við munum vinna náið með Saab til að ganga skipulega og á sanngjarnan hátt frá málum. Þetta er ekki gjaldþrotaferli eða þvingað skuldauppgjör. Þar af leiðandi reiknum við með að Saab standi við skuldir sínar, þar á meðal greiðslur til birgja og skrúfi niður starfsemina og dreifikerfi á skipulegan hátt um leið og við styðjum við bakið á okkar viðskiptavinum,” sagði Nick Reilly

Saab mun standa við ábyrgðir gagnvart þjónustu og hlutum í bílum sínum.