Landsnet hefur ráðið Gný Guðmundsson í starf verkefnisstjóra áætlana hjá þróunar- og tæknisviði félagsins og Sigrún Ragna Helgadóttir hefur verið ráðin verkefnalóðs hjá framkvæmda- og rekstrarsviði félagsins.

Gnýr kemur til Landsnets frá Rio Tinto Alcan þar sem hann var leiðtogi verkefnastjórnunar og sá m.a. um gerð og umsjón fjárfestingaáætlana. Hann er menntaður vélfræðingur og rafmagnstæknifræðingur og er að ljúka meistaranámi í raforkuverkfræði.

Sigrún Ragna er rafmagnsverkfræðingur (M.SC.) að mennt og kemur til Landsnets frá ATC (American Transmission Company) í Bandaríkjunum þar sem hún var sérfræðingur í raforkustjórnkerfum. Áður hefur hún m.a. starfað hjá verkfræðistofunni Mannviti og Landsvirkjun.