Verkefni Loftorku Borganesi ehf. hafa aldrei verið svo viðamikil og fjölbreytt sem nú og á það jafnt við um húsaeininga- og röraframleiðslu fyrirtækisins. Velta og starfsmannafjöldi hefur því aukist umtalsvert á liðnum misserum og ekki útlit fyrir annað en verkefnum fjölgi enn. Velta hefur þannig aukist svo mjög að nú í ágústmánuði náði hún veltu alls slíðastliðins árs eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu sem kemur út í dag.

Meðal verkefna nú má nefna að verið er að ljúka við að reisa viðbyggingar við svínasláturhúsið í Saltvík á Kjalarnesi, framleiðsla húseininga í 80 íbúða blokk á Landssímalóðinni í Grafarvogi er nú að ljúka, einingar við hraunklædda viðbyggingu í Straumsvík eru að rísa og verið er að hefja framkvæmdir við rannsóknahús og 51 íbúð á Bifröst. Þá voru áfangaskil í stóru verki í Grundarfirði þegar Fjölbrautaskóli Snæfellinga var settur í fyrsta skipti í hluta nýja skólahússins sem byggt er úr einingum frá Loftorku. Einnig er hafin framleiðsla eininga í þrjú raðhús við Tröllateig í Mosfellsbæ eins og kemur fram í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.

Þar kemur ennfremur fram að búið er að gera samninga um sölu 400-500 eininga í undirstöður undir möstur og staghellur í Sultartangalínu. Verkið er nokkuð viðamikið en þessar einingar verða afhentar til flutnings á hálendið í Hvalfjarðarbotni og að hluta til í Grafningi. Mikil framleiðsla og sala hefur verið í holræsarörum og ýmsum tengimannvirkjum í sumar og er unnið alla daga við steypuvinnu til að hafa við pöntunum. Auk þessara verkefna er verið að ljúka við nokkra stærri verksamninga sem nánar verður greint frá þegar þeir hafa verið undirritaðir. Nú eru 107 starfsmenn hjá fyrirtækinu.