*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 27. febrúar 2021 11:55

Góð arðsemi og lág ávöxtunarkrafa

Góð arðsemi af grunnrekstri og lág ávöxtunarkrafa á markaði eru helstu forsendur hærra verðmats Arion.

Júlíus Þór Halldórsson
Hlutabréf Arion banka hafa hækkað um 56% eftir að Benedikt Gíslason var ráðinn bankastjóri í júní 2019.
Eyþór Árnason

Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital metur virði Arion banka 130 krónur á hlut, eða rétt tæplega 200 milljarða króna heildarmarkaðsvirði, þegar frá hafa verið dregnir eigin hlutir bankans. Bréfin hafa hækkað um 27,4% það sem af er þessum mánuði, og stóðu við lokun markaða í gær í 121,5 krónu á hlut, sem gefur tæplega 184 milljarða heildarvirði. Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs – sem sjálfur á innan við 1% hlut – gaf einnig út verðmat upp á 150 krónur um miðjan mánuðinn.

Hagnaður bankans nam 12,5 milljörðum króna í fyrra, sem er talsverður viðsnúningur frá árinu áður þegar hann nam 1,1 milljarði. Einskiptisliðir og dótturfélög höfðu þó veruleg áhrif á afkomuna, og grunnreksturinn þykir hafa styrkst mikið nýverið og vera orðinn þokkalega arðbær. Til stendur að bankinn greiði þrjá milljarða króna í arð á þessu ári, og kaupa eigin bréf fyrir 15 milljarða því til viðbótar.

Verðmat Jakobsson byggir á því að skoða grunnrekstur bankans, en afkoma hans nam 18,7 milljörðum króna og batnaði um tæpa 5 milljarða milli ára, sem er arðsemi eiginfjár upp á 9,7% samanborið við 7,2% árið áður. „Grunnreksturinn er bara þetta sterkur. Ef þú horfir í gegnum froðuna virðist hann vera að skila um 10% arðsemi eiginfjár, og á að geta skilað enn meiru ef eigið fé lækkar með útgreiðslu,“ segir Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital, en í verðmatinu er grunnreksturinn sagður á svipuðum slóðum og árin 2013-2015.

Betra að eiga bankann en leggja inn í hann
Í grunninn er matið sagt sáraeinfalt, enda sé það svo til það sama og gefið var út í aðdraganda skráningar bankans á markað fyrir þremur árum síðan, nema hvað nú sé ávöxtunarkrafa til eigin fjár mun lægri vegna lægri vaxta, sem skili sér í hærra verðmati. Fjármagnskostnaður fyrirtækja hafi almennt lækkað mikið, og bankabókin sé ekki að skila miklu. Betra sé því að eiga bankann og fá arðgreiðslur en að eiga kröfu á hann í formi innlána, eins og að orði er komist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.