Miðað við einfalt meðaltal kaupsamninga hækkaði raunverð atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 20% milli annars ársfjórðungs 2014 og sama tíma í ár. Fermetraverð atvinnuhúsnæðis staðnaði nokkurn veginn að raunvirði á fjögurra ára tímabili milli 2010 og 2014. Nú virðist hins vegar sem ákveðnari uppgangur sé að færast í markaðinn, miðað við meðalverð í kaupsamningum.

Uppgangurinn sést einnig á tölum um veltu á markaðnum með atvinnuhúsnæði, en á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var veltan nokkurn veginn í meðaltali síðustu 20 ára. Í sínu lægsta gildi, árið 2009, var veltan innan við fjórðungur af langtímameðaltali.

Leigusalamarkaður

Magnús Árni Skúlason, sérfræðingur hjá Reykjavík Economics, segir í samtali við Viðskiptablaðið að flestar þær eignir sem lent hafi í höndum fjármálastofnana í hruninu séu komnar aftur út á markaðinn með útboði Regins, Eikar og Reita. Auk þess hafi sjóðir í eigu aðila á borð við Stefni og Gamma verið virkir á markaðnum. Magnús segir að verð atvinnuhúsnæðis fari að miklu leyti eftir því hvaða leigutekjur er hægt að hafa í húsnæðinu og hverjar væntingar eru um leigu til framtíðar

„Þetta var leigutakamarkaður strax eftir efnahagshrunið, en núna eru það leigusalarnir sem eru meira að ráða ferðinni,“ segir Magnús. „Þeir sem voru áhættusæknir, voru kaldir og fóru inn til dæmis á botni markaðar árið 2011, þeir hafa náttúrulega efnast vel á sínum fjárfestingum. Það eru dæmi um það að menn hafi ávaxtað sitt pund mjög vel.“

Aukin samkeppni um góðar staðsetningar

Spurður um það hvort Reitir finni fyrir aukinni samkeppni um eignir segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, að svarið við því sé tvíbent. „Það sem ég á við er að staðsetningar eru farnar að skipta meira máli en áður,“ segir hann. „Það er aukin samkeppni um góðar staðsetningar og minni samkeppni um aðrar. Þetta er farið að dragast dálítið í flokka.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .