Innviðir fyrirtækisins hafa verið styrktir með bættu skipulagi og verklagi og mikið hefur verið lagt upp úr öflugu sölu- og markaðsstarfi auk kröftugrar vöruþróunar. Þetta segir Finnur Geirsson, forstjóri Nóa Síríusar.

Hann segir þetta hafa skilað ágætis árangri og fyrirtækið hafi sjaldan verið eins öflugt og nú. Síðustu ár hafi verið krefjandi eins og hjá öðrum íslenskum fyrirtækjum, auk þess hafi hráefnaverð til sælgætisframleiðslu hækkað mikið.

„Það er mikil samkeppni í okkar geira eins og vera ber og það þarf að hafa mikið fyrir því að halda góðri markaðshlutdeild. Íslensku fyrirtækin eru að keppa við mörg af stærstu fyrirtækjum í heimi sem eru í allt annarri aðstöðu til að útvega hráefni og önnur aðföng auk þess sem vextir hjá þeim eru mörgum sinnum lægri en þeir sem hér bjóðast,“ segir Finnur.

Finnur segir fyrirtækið þó sækja fram og áhersla sé lögð á útflutning.

„Við höfum stundað útflutning í nokkrum mæli í allmörg ár þó að enn sem komið er sé hann ekki ýkja stór hluti af heildarveltu. Við höfum hins vegar fengið mjög góðar viðtökur víða um heim sem eykur trú okkar á því að við munum ná góðum árangri. Til dæmia höfum við um allnokkurt skeið selt súkkulaði til Whole Foods verslanakeðjunnar í Bandaríkjunum og nýverið fjölgaði vöruliðum þar um helming. Þetta er verslanakeðja sem gerir mjög miklar kröfur og það þykir mikil viðurkenning að vera þar inni.“

Nánar í sérblaði Viðskiptablaðsins um framúrskarandi fyrirtæki sem unnið var í samstarfi Creditinfo. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .