Íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Gogogic verður veittur styrkur frá Nordic Game Program, á morgun 10. desember, til framleiðslu á tölvuleiknum „Vikings of Thule“ sem fyrirtækið er með í þróun.

Styrkinn fær fyrirtækið til að vinna leikinn og koma honum á markað segir í frétt á heimasíðu Samtaka iðnaðarins.

Gogogic er rúmlega tveggja ára gamalt sprotafyrirtæki sem einbeitir sér að gerð vefleikja, til dæmis leikjum sem keyra á Facebook og fyrir iPhone.

Einnig hefur fyrirtækið framleitt markaðsefni fyrir vefinn, allt frá einföldum vefborðum til stærri vefja og auglýsingaleikja. Hjá fyrirtækinu starfa 15 manns sem hafa mikla reynslu í forritun og þekkingu á sviði grafískrar vinnu fyrir vefinn.