Tónlistarveitan Gogoyoko var ekki rekstrarhæf í lok síðasta árs, að því er kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins. Framkvæmdastjórinn er hættur og hefur annar verið ráðinn í staðinn.

Tap félagsins árið 2011 nam 106,2 milljónum króna og eigið fé er neikvætt um 84,1 milljón króna. Ársreikningurinn er samantekinn og því er ekki í honum að finna tölur um veltu, en rekstrarafkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði var neikvæð um 81,3 milljónir króna.

Að viðbættum 70,4 milljóna króna afskriftum var afkoman neikvæð um 151,8 milljónir. Við þetta bætast svo nettó fjármagnsgjöld að fjárhæð 13,9 milljónir króna. Samtals er staðan fyrir árið 2011 neikvæð um 165,6 milljónir króna.

Reksturinn gengur því ekki vel hjá Gogoyoko, en þrátt fyrir það var afkoman árið 2011 aðeins betri en árið á undan, þegar tapið nam 115,8 milljónum króna.

Egill Másson, fjárfestingarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og stjórnarformaður Gogoyoko, segir í samtali við Viðskiptablaðið að augljóst sé að eitthvað þurfi að gera í rekstri fyrirtækisins. Hann vilji aftur á móti ekki tjá sig um hvað hugsanlega verði gert fyrr en að loknum hluthafafundi í desember.

Nánar ef fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðlið undir liðnum tölublöð hér að ofan.