Mál blaðamannsins Bjarkar Eiðsdóttur hefur, með stuðningi Blaðamannafélags Íslands og Birtings útgáfufélags ehf. verið kært til Mannréttindadómstóls Evrópu. Kærð er niðurstaða Hæstaréttar í máli Ásgeirs Þórs Davíðssonar á veitingahúsinu Goldfinger gegn blaðamanni og ritstjóra Vikunnar.

Í málinu var blaðamanni og ritstjóra Vikunnar stefnt fyrir ummæli sem höfð voru eftir  fyrrum starfsstúlku á veitingahúsinu Goldfinger í viðtali, meðal annars um að vændi tengdist starfseminni. Starfsstúlkunni fyrrverandi var einnig stefnt en það var síðan dregið til baka eftir að hún staðhæfði fyrir dómi að ekki væri rétt eftir henni haft í viðtalinu.

Héraðsdómur sýknaði bæði blaðamann og ritstjóra blaðsins, þar sem þær gætu ekki talist höfundar ummælanna. Hæstiréttur sneri niðurstöðunni við og taldi blaðamanninn höfund greinarinnar og samkvæmt prentlögum væri hann því ábyrgur fyrir öllu sem kæmi þar fram.

Kæran send í dag

Í dag, 19 ágúst, var kæra vegna málsins send til Mannréttindadómstóls Evrópu eins og kemur fram í tilkynningu.  Kvartað er yfir því að niðurstaða Hæstaréttar í málinu brjóti gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland hefur lögleitt. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur margsinnis ítrekað í dómum sínum, að það feli í sér alvarlegt brot á tjáningarfrelsi og gangi gegn frelsi fjölmiðla að gera blaðamann ábyrgan fyrir orðum viðmælanda síns segir í tilkynningu.

,,Víðast hvar verður tjáningarfrelsi ekki takmarkað nema með ströngum undanþágum. Fleiri málaferli gegn íslenskum blaðamönnum og hærri sektardómar benda til þess að þróunin sé öfug hér á landi," segir í tilkynningunni.

Þannig  hafa  íslenskir  dómstólar  ekki  sýnt  fjölmiðlum nægan skilning í dómsmálum  þar  sem  reynir á rétt fjölmiðla til að taka við og miðla áfram upplýsingum  um  umdeild  málefni.   Viðbrögð  yfirvalda  við  umfjöllun um efnahagshrunið  á  Íslandi  þar sem birtar voru leynilegar bankaupplýsingar sem var lekið í fjölmiðla, leiða einnig í ljós takmarkaðan skilning á rétti fjölmiðla  til að birta upplýsingar sem varða almannahag þótt þeim kunni að hafa verið komið í hendur fjölmiðla með ólögmætum hætti.