*

föstudagur, 10. apríl 2020
Erlent 20. júní 2019 15:29

Goldman lækkar verðmat á Tesla

Verðmat fjárfestingabankans er um 40% undir núverandi markaðsvirði rafbílaframleiðandans.

Ritstjórn

Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefur lækkað verðmat sitt á rafbílaframleiðandanum Tesla um 21% frá síðasta mati samkvæmt frétt Reuters. Bankinn mælir því með sölu á bréfum félagsins enda er verðmatið 40% undir markaðsvirði félagsins. 

Fyrr í mánuðinum greindi Elon Musk, forstjóri Tesla, hluthöfum frá því að félagið væri á góðri leið með að ná framleiðslumarkmiðum sínum fyrir árið í ár og það væri ágætur möguleiki á því að yfirstandandi ársfjórðungur gæti orðið metfjórðungur á öllum sviðum. Tesla hefur á síðustu misserum átt í töluverðum vandræðum með að ná upp þeirra framleiðslugetu sem til þarf til að svara þeirri eftirspurn sem félagið segir vera eftir bílum sínum.

David Tamberrino, greinandi hjá Goldman Sachs, er hins vegar á öðru máli og segir að þrátt fyrir að það hafi verið bjartara yfir eftirspurn eftir bílum Tesla á öðrum ársfjórðungi sé það ekki nóg til að gera reksturinn sjálfbæran. Tekjur Tesla námu samtals 21,4 milljörðum dollara á síðasta ári en félagið skilaði hins vegar tapi upp á tæpan milljarð dollara. Þessu til viðbótar nam tap Tesla á fyrsta ársfjórðungi þessa árs 702 milljónum dollara. 

Verðmat Goldman Sachs á Tesla er nú það þriðja lægsta af öllum þeim greiningaraðilum sem fylgjast með fyrirtækinu en þeir eru 31 talsins. 12 þeirra mæla með kaupum á félaginu, 7 mæla með því að halda bréfum félagsins á meðan 12 mæla með því að selja bréf Tesla.

Þegar þetta er skrifað stendur hlutabréfaverð Tesla í 220 dollurum á hlut og hefur lækkað um 28% það sem af er ári.  

Stikkorð: Goldman Sachs Tesla