Þeir sem vilja eignast 18 holu golfvöll geta látið drauminn rætast. Einn slíkur hefur verið til sölu síðan í vor við byggðakjarnann við Minni-Borg í Grímsnesi. Völlurinn er á 56 hektara jörð. Búið er að hanna hann og byggja upp flatir og teiga. Framkvæmdir hófust við völlinn árið 2006. Hann er ekki fullbúinn en búið að sá í hann að hluta og því ekki hægt að spíla golf á vellinum enn sem komið er. Þegar golfvöllurinn verður tilbúinn verður hann einn af lengstu golfvöllum landsins.

Grímsnes- og Grafningshreppur á golfvöllinn eftir að eignarhald á honum var tekið yfir af fyrri eigendum.

„Það eru þreifingar í gangi,“ segir Steindór Guðmundsson, fasteignasali hjá Fasteignasölu Lögmanna Suðurlandi á Selfossi sem er með söluna á sinni könnu spurður hvort margir hafi skoðað kaup á vellinum.