Google hefur á síðustu mánuðum fengið 144.954 beiðnir um að eyða alls 497.695 niðurstöðum úr gagnagrunni leitarvélarinnar. Af þeim hefur einungis 42% verið eytt, en 58% fyrirspurnum hefur verið hafnað.

Evrópudómstóllinn úrskurðaði í maí að einstaklingar frá Evrópu gætu óskað eftir því við Google og aðrar leitarvélar að láta eyða viðkvæmum upplýsingum um sig . Leitarfyrirtækin geta þó neitað fyrirspurnum undir ákveðnum kringumstæðum.

Google sendi í gær frá sér tölur sem sýna þróun þessara mála eftir breytinguna, en fjallað er um málið á vef CNN. Í tilkynningu frá Google segir að þegar lagt sé mat á fyrirspurnir sé litið til þess hvort um er að ræða mjög gamlar eða óviðeigandi upplýsingar, eða hvort almannahagsmunir séu fólgnir í því að halda upplýsingunum inni í leitarvélinni.