Á síðasta ári gerði Google-leitarvélin rannsókn sem náði yfir milljarða vefsíðna þar sem leitað var að meinfýsnum vefsíðum sem leituðust við að ráðast á gesti sína. Niðurstöðurnar sýna að ein af hverjum þúsund vefsíðum eru hættulegar gestum sínum.

Sérfræðingar hafa nefnt þessar árásir „Drive-By downloads“ og hafa þær stóraukist á undanförnum árum samhliða því að vírusvarnir og eldveggir hafa verið að bæta getu sína til að vinna á móti vírusum og tölvuormum. Þannig reyna tölvuþrjótar nú að komast að fórnarlömbum sínum í gegnum vefsíður annarra aðila.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom meðal annars í ljós að síður sem innihalda vafasamt efni á borð við klám og annað ólöglegt efni eru litlu hættulegri en aðrar síður og að langflestar hættulegar síður eru hýstar í Kína, eða 67%, svo koma Bandaríkin með 15% og Rússland með 4%.