Í tilefni af 20 ára afmælis leiðtogafundarins í Höfða mun Mikhail Gorbachev flytja erindi í Háskólabíói á afmælisdaginn 12. október 2006, segir í fréttatilkynningu.

Það er Concert hf. sér um að flytja Gorbachev til landsins.

Upphaf endaloka kalda stríðsins má rekja til leiðtogafundar Ronald Reagans, fyrrum Bandaríkjaforseta og Mikhail Gorbachev, fyrrum aðalritara sovéska Kommúnistaflokksins í Höfða 11. og 12. október 1986. Í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá hinum sögulega Höfðafundi kemur Gorbachev til Reykjavíkur til þess að flytja fyrirlestur í Háskólabíói, segir í tilkynningunni.

Í hátíðarfyrirlestri sínum mun hann meðal annars ræða um mikilvægi fundarins, en Gorbachev hefur haldið því fram að fundurinn hafi gjörbreytt samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna. Gorbachev segir að fundurinn með Reagan hafi skapað mikið traust þeirra á milli sem flýtti fyrir endalokum kalda stríðs Austur- og Vesturveldanna sem staðið hafði linnulaust frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í tilefni heimsóknar Gorbachev til Reykjavíkur býður Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, heiðursgestinum til hádegisverðar í Höfða, til að minnast þess að 20 ár eru liðin frá þessum sögufræga fundi.

Það er mat manna að leiðtogafundurinn hafi komið Íslandi endalega á heimskort alþjóðamála og að Reykjavík hafi áunnið sér varanlegan sess sem vettvangur heimsfriðar, segir í tilkynningunni.