Búist er við olíuverðslækkunum á næstunni en meirihluti sérfræðinga, sem tóku þátt í könnun Bloomberg, spáðu því að olíuverð lækki í þessari viku. Þessi könnun hefur reynst nokkuð vel til að spá fyrir um þróun olíuverðs enda hefur hún verið sannspá í þrettán af síðustu átján skiptum sem hún hefur verið framkvæmd. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Veðurfar í norðurhluta Bandaríkjanna hefur verið mjög gott miðað við árstíma og er búist við áframhaldandi hlýindum í næstu viku. Góð veðurtíð hefur dregið úr eftirspurn eftir olíu til hitunar og leitt til þess að búist er við lækkun olíuverðs. Olíuhreinsunarstöðvunum í Bandaríkjunum mun því gefast tækifæri til þess að auka eldsneytisframleiðslu sína, og búa sig undir mikla eftirspurn í sumar. Mesta eftirspurnin eftir eldsneyti byrjar undir lok maí þegar ferðalög Bandaríkjamanna hefjast. Þetta og það að búist er við að olíuhreinsunarstöðvarnar muni auka framleiðslu sína á komandi vikum mun væntanlega létta undan þrýstingi á heimsmarkaðsverð olíu.