Dúkkulísuvefurinn Dressupgames.com, sem er í eigu Ingu Maríu Guðmundsdóttur á Ísafirði skilaði um 111 milljóna króna hagnaði í fyrra samkvæmt ársreikningi sem skilað var inn til ársreikningaskrár 25. september sl. Þetta er umtalsvert meiri hagnaður en árið 2008 en þá var hagnaðurinn rúmar 100 milljónir króna samkvæmt ársreikningi. Það var þá algjört metár í rekstrinum. Ekkert fyrirtæki sem skráð er á Vestfjörðum greiddi meiri tekjuskatt af hagnaði árið 2008 en Dress up games, eða sem nam 15,3 milljónum króna. Í fyrra greiddi fyrirtækið hins vegar 19,3 milljónir króna í skatt í takt við hagnaðaraukningu milli ára. Úr félaginu var greiddur 105 milljóna króna arður í fyrra.

Eigið fé félagsins eftir arðgreiðsluna var 114 milljónir samkvæmt ársreikningi. Viðskiptaskuld upp á 85 milljónir, sem þó er ekki vaxtaberandi, er skráð í ársreikning félagsins. Félagið átti rúmlega 191 milljón á bankareikningi í árslok 2009 og viðskiptakröfur að auki upp á 28 milljónir. Veltufjármunir voru því skráðir 219 milljónir í árslok, samkvæmt ársreikningi.

Vaxið jafnt og þétt

Vefurinn hefur vaxið jafnt og þétt frá því að honum var komið á fót árið 1998. Notendur hans eru aðallega ungar stelpur í enskumælandi löndum, einkum Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu.


Vefurinn er gríðarlega vinsæll. Á síðasta ári voru um 5,3 milljónir innlita á vefsíðu sína á mánuði en til samanburðar fær mbl.is, umferðarmesti íslenski vefurinn, um 1,35 milljónir innlita á sinn vef á mánuði. Vefurinn er því gríðarlega vinsæll. Tekjurnar koma í gegnum auglýsingar frá tölvurisanum Google. Tekjurnar sveiflast eftir því hvernig umferðin er á vefinn. Hún hefur frá stofnun aukist jafnt og þétt. Flettingarnar á síðunni eru um 28 til 30 milljónir á mánuði.


Það þykir næstum einstakt, miðað við sambærilegar vefsíður, að Dress up games sé með samning við Google. "Það þykir mjög sérstakt í þessum bransa að ég sé með samning við Google," sagði Inga María í samtali við Viðskiptablaðið í nóvember í fyrra.
Inga María vildi ekki tjá sig um rekstur Dress up games vefsins þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því.