*

sunnudagur, 13. júní 2021
Erlent 8. september 2020 08:32

Græddi nærri 560 milljarða

SoftBank veðjaði á hækkanir bandarískra tæknifyrirtækja eftir heimsfaraldurinn. Stofnandinn hafði veðsett hluti í félaginu.

Ritstjórn
Masayoshi Son er stofnandi og forstjóri SoftBank.
epa

Japanska stórfyrirtækið SoftBank hefur grætt um 4 milljarða dala, andvirði 558 milljarða íslenskra króna, á því að veðja á miklar hækkanir bandarískra tæknifyrirtækja.

Félagið á þó eftir að leysa hagnaðinn út, sem gæti orðið eitthvað minni vegna bæði lækkana frá því að félög eins og Apple, Amazon, Microsoft og Tesla risu sem hæst í kauphöllum vestanhafs. Einnig gæti félagið hafa tekið einhver veðmál, eða varnir, í hina áttina að því er FT segir frá, til að tryggja sig gegn of miklu tapi ef veðmálið gengi ekki eftir.

Gengi bréfa SoftBank náði hæstu hæðum í síðustu viku, fór þá í 6.595 jen, og hafði þá ekki verið hærra í 20 ár, en hefur lækkað nokkuð síðan, þar af um 7,15% í dag þegar þetta er skrifað, niður í 5.881 jen.

Tapaði sjálfur 70 milljörðum dala á netbólunni

Stofnandi og forstjóri SoftBank, Masayoshi Son, sem sjálfur tapaði um 70 milljörðum dala þegar netbólan sprakk upp úr aldamótum, tók ákvörðunina um að fyrirtækið fjárfesti í kaupréttunum. Er áhættan af afleiðuviðskiptunum talin nema um 30 milljörðum dala.

Nafnvirði kauprétta í viðskiptum á bandarískum hlutabréfamörkuðum hafa náð sögulegu hámarki síðustu tvær vikurnar, og numið að jafnaði 335 millljörðum dala á dag, samkvæmt útreikningum Goldman Sachs. Það er um þrefalt á við meðaltalið á árabilinu 2017 til 2019.

Ákvörðun Son um fjárfestingarnar kom í kjölfar lækkana á hlutabréfamörkuðum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, en bréf í SoftBank hrundu líkt og margra annarra í upphafi hans. Son hafði sjálfur tekið lán fyrir háar fjárhæðir út á virði eigin bréfa í félaginu og var hann því sagður vera kominn út á ystu nöf.

Síðan þá hefur SoftBank losað sig við stóra hluti í félögum eins og Alibaba í Kína, T-Mobile í Bandaríkjunum og fjarskiptafélögum í Japan, og notað fjármagnið til kaupa á eigin bréfum sem og til að greiða niður skuldir fyrirtæksins.

Stikkorð: Microsoft Apple Tesla Masayoshi Son Soft Bank