Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að kaupa landspildu, 4,3 hektara, úr jörð Litlu-Sandvíkur vegna hreinsistöðvar fráveitu á Selfossi. Landið er neðan við flugvöllinn á Selfossi við Ölfusá. Landið er í eigu þriggja systkina, þeirra Guðmundar, Sigríðar og Ragnhildar Lýðsbarna frá Litlu-Sandvík.

Fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu að kaupverðið nemur 15 milljónum króna eða sem nemur 3,5 milljónum króna á hektarann.

Helgi Haraldsson, oddviti Framsóknarflokksinsí Árborg, segir í samtali við blaðið þetta hátt verð miðað við að kaupverðið á góðri byggingahæfri lóð í þéttbýli sé um tvær milljónir króna.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdstjóri Árborgar, segir hins vegar í samtali við blaðið um sérstakar aðstæður að ræða og kaupin helgast af brýnni þörf á landinu.