Fjármála- og efnahagsráðuneytið keypti þjónustu af ráðgjafarfyrirtækinu Burson-Marsteller fyrir heilar 50 milljónir króna frá árinu 2014. Skýring á kaupunum er skráð sem „Ráðgjöf og kynningarþjónusta á alþjóðlegum vettvangi.”

Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur varðandi útgjöld ráðuneytisins í sérfræði- og ráðgjafarþjónustu.

Fram kemur í umfjöllun PR Week frá árinu 2012 að félagið hafi verið fengið til starfa fyrir íslensku ríkisstjórnina í þeim tilgangi að bæta ímynd þjóðarinnar á alþjóðaviðskiptavettvangi. Í þeirri umfjöllun er þó raunar aðeins tekið fram að störf Burson-Marsteller hafi verið í kring um Icesave-málið. Greiddi fjármálaráðuneytið allt í allt 237 milljónir króna fyrir aðkeypt sérfræði- og ráðgjafarstörf á tímabilinu, sem er frá árinu 2014 til loka októbermánaðar 2015.

Félaginu Burson-Marsteller er lýst sem sérhæfðu í krísuráðgjöf og stjórnun, og hefur unnið mörg verðlaun fyrir störf sín innan ráðgjafariðnaðarins. Til að mynda hefur fyrirtækið starfað við krísustjórnunarverkefni á borð við kúgunartilraun gagnvart GlaxoSmithKline og ímyndaraðstoð fyrir Egyptaland í kjölfar hryðjuverkaárása sem gerðar voru á ferðamenn þarlendis.

Umdeildir skjólstæðingar

En fyrirtækið er ekki laust við gagnrýni. Hefur því verið gefið að sök að hafa starfað með ríkisstjórnum sem hafa brotið á mannréttindum þegna sinna og sagt hafa skipulagt ófrægingarherferðir gegn fyrirtækjum. Á Wikipedia síðu um fyrirtækið segir að það hafi unnið gegn Google fyrir hönd umbjóðanda síns, Facebook.

Hvað varðar Argentínu og Indónesíu þá starfaði félagið með síðustu einræðisstjórn Argentínu að því að bæta ímynd þjóðarinnar fyrir heiminum meðan mannréttindaskörungar úthrópuðu stjórn þess fyrir ódæðisverk á borð við morð, mannrán og pyntingar . Í Indónesíu starfaði félagið hins vegar með ríkisstjórn þjóðarinnar eftir að indónesískir hermenn eru sagðir hafa myrt 250 lýðræðissinna í Austur-Tímor, og aðstoðaði ríkisstjórnina við að bæta ímynd sína í heimssviðsljósinu.