Yfirskattanefnd hefur úrskurðað að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi ofgreitt skatta vegna félags síns Wintris. Úrskurðurinn sem kveðinn var upp 22. september síðastliðinn var birtur fyrir helgi, en hún hafði greitt 25 milljónir króna í aukinn skatt í kjölfar niðurstöðu Ríkisskattstjóra, sem hún hafði þá kært til yfirskattanefndar í kjölfar þess að setja fyrirvara á greiðsluna.

Í úrskurðinum kemur þó fram að Anna hafi sjálfviljug farið þess á leið þann 16. maí 2016 að framtöl hennar fyrir árin 2011 til og með 2015 yrðu leiðrétt. Kæran snerist um það að Ríkisskattstjóri féllst ekki á færslur vegna gengisbreytinga, sem þýddi að uppsafnað ónotað tap félagsins til frádráttar frá skatti reyndist rúmar 50 milljónir en ekki 162 milljónir króna.

Þurftu ekki að greiða álag

Sigmundur segir að ekki hafi þurft að greiða álag af viðbótarupphæðinni, því niðurstaðan sýni að engin tilraun hafi verið gerð til skattaundanskots að því er fram kemur í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

„Í ljósi umræðunnar ákváðum við þó, að eigin frumkvæði, að senda ríkisskattstjóra erindi þar sem mun ítarlegri grein var gerð fyrir umræddum eignum og tekjum af þeim en skattframtalsform gera ráð fyrir og gefa kost á. Ríkisskattstjóra var boðið að endurmeta þá aðferð sem lögð var til grundvallar skattlagningu,“ segir Sigmundur Davíð.

„Þetta fól í sér nokkra hækkun skattstofns. Það sem skipti þó meira máli var að ljóst þótti að ekki hefði verið gerð tilraun til skattaundanskots. Fyrir vikið þurfti ekki að greiða álag af viðbótarupphæðinni.
Endurskoðendur okkar töldu hina nýju aðferð ríkisskattstjóra ekki ganga upp. Engu að síður var ákveðið að greiða skattinn til fulls en með fyrirvara.

Greiddu meira en farið var fram á

Raunar greiddum við meira en farið var fram á. Ríkisskattstjóri hafði ákvarðað tiltekna upphæð en við bentum á að miðað við forsendurnar sem lágu til grundvallar hefði ríkisskattstjóri vanáætlað hvað við ættum að greiða (við erum samsköttuð). Mér var tjáð að það þættu nokkur nýmæli að skattgreiðandi sem fengi ákvarðaðan á sig skatt færi fram á að ákvörðunin yrði hækkuð.“

Sigmundur segir að ef til vill ætti að þakka fjölmiðlamönnum fyrir að benda á að eiginkona sín hefði getað sparað sér skattgreiðslur því hún hefði farið varfærnustu leið sem völ var á, með því að greiða fullan skatt á Íslandi og ekki notast við heimildir laga til að draga úr skattlagningu.

Handritið skrifað fyrirfram

„Mér hefði þó þótt heiðarlegra að sú ábending bærist með öðrum hætti en raun varð. Ef heiðarleg vinnubrögð hefðu verið viðhöfð og ég eða kona mín einfaldlega verið spurð út í félagið hefði verið hægt að veita allar upplýsingar eins og raunar var gert. Það var hins vegar ekkert tillit tekið til skýringanna því búið var að skrifa handrit fyrir fram,“ segir Sigmundur.

„Í stað þess að leita sannleikans var leitast við að draga upp hið gagnstæða með mikilli fyrirhöfn. Sett á svið leikrit, reynt við að blekkja og rugla bæði viðmælendur og áhorfendur, viðtal tekið úr samhengi til að láta það líta út fyrir að vera allt annað en lagt var upp með, litið fram hjá svörum, skýringum og staðreyndum.

Raunverulegur ávinningur af lágskattasvæði

Tilgangurinn hafði ekkert með sannleiksleit að gera. Handrit og framleiðsla snerust um að reyna að niðurlægja forsætisráðherra Íslands og þar með landið í útlöndum og, eins og við fengum að heyra, fella ríkisstjórn landsins. Hvergi annars staðar voru önnur eins vinnubrögð viðhöfð, ekki einu sinni í Bretlandi þar sem forsætisráðherrann hafði þó haft raunverulegan ávinning af eignum sem skattlagðar voru á lágskattasvæði en ekki í heimalandinu.“