Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur gert slitastjórn Glitnis tilboð um fullnaðaruppgjör á gjaldmiðlavarnarsamningum sem sjóðurinn gerði fyrir fall bankans haustið 2008. Samkvæmt því sem segir í frétt Morgunblaðsins er fjárhæðin sem lífeyrissjóðurinn mun greiða Glitni talsvert undir tíu milljörðum króna verði tillagan samþykkt. Það er mun lægri fjárhæð en ýtrustu kröfur Glitnis. Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn greiði Glitni með erlendum eignum.

Allt frá falli fjármálakerfisins hefur verið uppi ágreiningur um uppgjör á gjaldmiðlavarnarsamningunum og hefur mikið borið í milli um fjárhæðir. Málið hefur verið rekið fyrir dómstólum eftir að slitastjórnin stefndi sjóðnum haustið 2012. Fór Glitnir fram á 19 milljarða auk dráttarvaxta vegna 72 óuppgerðra gjaldeyrisvarnarsamninga.

Í ársreikningi Lífeyrissjóðs verslunarmanna fyrir árið 2013 er brúttóskuld vegna samninganna hins vegar áætluð ríflega 13,8 milljarðar að hámarki, að mati sjóðsins. Sú fjárhæð tekur tillit til þess að sjóðurinn geti skuldajafnað skuldabréfum og öðrum kröfum gagnvart Glitni á móti þeim kröfum sem slitastjórnin telur sig eiga á sjóðinn.