Fullyrt var í hlaðvarpsþætti Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football , í gær að Síminn greiddi um þrjá milljarða króna fyrir sýningarrétt á ensku úrvalsdeildinni til þriggja ára, árin 2022-2025. Það samsvarar um milljarði fyrir hvert keppnistímabil sem alls eru leiknir 380 leikir. Síminn heldur sýningarréttinum eftir að hafa boðið betur en Sýn í síðasta útboði sem náði til áranna 2019-2022.

Nú bauð Viaplay einnig í réttinn auk Símans og Sýnar. Viaplay er fyrir til að mynda með sýningarrétt á enska boltanum á Norðurlöndunum og nældi sér einnig í sýningarréttinn í Hollandi, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum fram til ársins 2028.

Útboðið fór í þrjár umferðir og því má vænta að boðin hafi hækkað þónokkuð í útboðsferlinu. Kaupverðið er trúnaðarmál en Fréttablaðið fullyrti í síðasta útboði fyrir þremur árum að Sýn hafi boðið um 1,1 milljarð í sýningarréttin sem ekki dugði til.

Samkeppniseftirlitið sektaði Símann um 500 milljónir króna í maí í fyrra vegna pakkatilboða sem innihéldu enska boltann og aðrar áskriftaleiðir, þar sem hægt var að fá enska boltann á betri kjörum en að kaupa hann stakann. Slíkt væri brot á sátt Símans við Samkeppniseftirlitið. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði sektina í 200 milljónir króna í byrjun þessa árs. Síminn hefur hafnað því að gerast brotlegt við sáttina og meðal annars benti á að verð á áskrift að ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefur lækkað frá því Síminn tók við réttinum og sýnt væri frá fleiri leikjum en áður.

Fyrir útboðið í sumar óskaði Síminn eftir því frá Samkeppniseftirlitinu að fá upplýsingar um hvort heildsölukvaðir væru á sýningarréttinum, það er hvort kvaðir væru á að afhenda öðrum fyrirtækjum hér á landi útsendingar eða áskriftir í heildsölu. Slíkt væri til þess fallið að hafa áhrif á það verðmæti sem fólgið í útsendingarréttinum. Samkeppniseftirlitið gaf út í lok júní að slíkt væri „atviksbundið hverju sinni“ og myndi því ekki liggja fyrir áður en útboðið færi fram.