Gríska ríkið greiddi ekki 1,6 milljarð evra afborgun af lánum sínum til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær. Fyrir vikið lýsti sjóðurinn yfir greiðslufalli gríska ríkisins. Þetta kemur fram á Washington Post. Í morgun höfðu safnast 583.072 evrur á hópfjármögnunarsíðunni Indiegogo, sem er um 0,03% af þeirri afborgun sem féll í gjalddaga í gær

Gríska ríkisstjórnin hafði farið fram á aukna neyðaraðstoð frá öðrum ríkjum Evrópusambandins, en fjármálaráðherrar ríkjanna höfnuðu beiðninni með vísan til þess að hún væri óraunhæf. Talið er að greiðslufall Grikkja kunni að hafa mikil áhrif á samstarf þjóða í Evrópu. Bankar eru enn lokaðir í Grikklandi.

Þjóðaratkvæði þann 5. júlí

Auknar líkur eru taldar á því að Grikkir muni slíta sig frá myntsamstarfi Evrópusambandsins eða að þeim verði sparkað þaðan út, jafnvel þó flestir þeirra séu hlynntir samstarfinu.

Aftur á móti eru margir sem hugnast illa kröfur annarra þjóða, gjarnan þeirra sem lána Grikkjum fé, um aukið aðhald í ríkisfjármálum í stað frekari fyrirgreiðslna. Þann 5. júlí næstkomandi verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um þessar kröfur, en niðurstöður hennar munu ráða miklu um framhaldið. Verði niðurstaðan sú að gríska þjóðin segi nei, er talið líklegt að myntsamstarfi verði slitið við Grikkland og jafnvel að það þýði endalok aðildar ríkisins að Evrópusambandinu.