Greiðslufallsdraugurinn knýr sem fyrr þéttingsfast á dyr Grikklands og fundur fjármálaráðherra Evrópusambandslandanna í Lúxemborg í vikunni varð ekki til þess að stökkva honum á flótta. Að vísu hafði verið talið að hann myndi ráðast til inngöngu ef Grikkir fengju ekki greitt næsta framlag úr björgunarsjóði ESB fyrir miðjan þennan mánuð en nú á að heita svo að Grikkir geti þraukað fram í miðjan nóvember. Þeir fá því að hanga eins og í lausu lofti enn um sinn og ekki verður tekin endanleg ákvörðun um greiðsluna fyrr en skýrsla sérfræðinga um árangurinnn af sparnaðaraðgerðum Grikkja liggur fyrir.

Það er því ljóst að Grikkir fá féð, um átta milljarða evra, ekki fyrr en seint í október eða þegar verður komið fram í nóvember. Og þeim mun ekki af veita af, því að óbreyttu munu ekki verða til peningar í gríska ríkiskassanum til að greiða opinberum starfsmönnum laun eða lífeyri til eftirlaunaþega.

Grikkland verður ekki látið falla

Þrátt fyrir töfina á greiðslunni fullyrti Jean-Claude Juncker, formaður stýrihóps evrusvæðisins, að loknum fundi fjármálaráðherra evrulandanna á þriðjudaginn, að ganga mætti út frá því að Grikkland muni geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar og að allt verði gert til þess að koma í veg fyrir greiðslufall landsins.

Þá tók hann og fram að tekist hefði samkomulag við Finna um ábyrgðir vegna framlags þeirra til björgunarsjóðsins. Eins lagði hann áherslu á að á fundi fjármálaráðherranna hefði enginn ráðherranna lýst þeirri skoðun að ekki ætti að lána Grikkjum meira fé og láta landið þar með fara á hliðina. Engu að síður er óvissa um hvort grísk stjórnvöld muni ná markmiðum um niðurskurð á fjarlagahalla þessa árs og þess vegna hefur verið haft eftir Juncker að þegar árangurinn af sparnaðargerðum Grikkja verði metinn verði horft til bæði þessa árs og hins næsta.

Þýski efnhagsráðherrann undirbýr neyðaráætlun

Þótt hin opinbera skýring á töfinni á útgreiðslu til Grikkja sé sögð sú að bíða verði eftir niðurstöðum skýrslu sérfræðingahóps um framgang sparnaðaraðgerða kann líklega ýmislegt annað að búa að baki. Þannig kemur fram í þýskum fjölmiðlum að sumir fjármálaráðherrar evrulandanna hafi á fundinum í Lúxemborg látið í ljós efasemdir um raunverulegan vilja Grikkja til þess að grípa til harkalegra niðurskurðaraðgerða. Því má ætla að öðrum þræði sé verið að setja enn frekari þrýsting á grísk stjórnvöld um að hika hvergi í niðurskurði á fjárlagahallanum.

Fréttaskýring um viðbrögð við vanda Grikkja birtist í heild í Viðskiptablaðinu 6. október sl.