Skuldatryggingarálag íslensku bankanna er enn á uppleið og stefnir í svipaða átt og þegar það var hæst í marsmánuði. Kaupþing er eins og áður með hæsta álagið, 945 punkta, þar á eftir Glitnir með 935 punkta, en álag Glitnis fór í rétt rúma 1000 punkta þegar það stóð hæst. Álagið á Landsbankann er töluvert lægra, eða 600 punktar. Þessar tölur eru frá því í gærmorgun.

Viðskiptablaðið leitaði eftir áliti hjá greinendum íslensku viðskiptabankanna þriggja á áframhaldandi leitni álagsins upp á við. Þeir greinendur sem blaðið ræddi við eru allir sammála um að markaður með skuldatryggingarálag íslensku bankanna sé að vissu leyti óskipulagður og ógegnsær. Einnig er álit manna að álagið endurspegli áhættufælni fjárfesta fremur en raunverulega áhættu bankanna sem slíka.

Svartur kassi

Þorbjörn Atli Sveinsson hjá Greiningardeild Kaupþings segir að þessi markaður sé eins og svartur kassi. Það viti í raun enginn hvað sé nákvæmlega á bak við þessa hækkun, né hversu mikið magn viðskipta liggur að baki. „Þetta er algjörlega svart box, og afskaplega erfitt að túlka þetta og ekki ljóst hvort það gefi neinar vísbendingar um eitt né neitt,“ segir Þorbjörn.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .