Samkvæmt nýrri spá um þróun ávöxtunarkröfu íbúðabréfa gerir greiningadeild Glitnis ráð fyrir því að krafan muni halda áfram að lækka í mars. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 10. apríl.

„Gerum við ráð fyrir lækkun stýrivaxta þá og að stýrivextir verði 11% lok árs og 7% í lok ársins 2009, en þetta er talsvert hraðara lækkunarferli en við höfum áður reiknað með,“ segir greiningardeild Glitnis.

Þá segir að skammvinnur verðbólgukúfur er þar að auki væntanlegur nú á fyrri hluta ársins í kjölfar veikingar krónunnar og verðbólga til skamms tíma því meiri.

Greiningardeild Glitnis segir að á seinni helming þessa árs muni ávöxtunarkrafa íbúðabréfa halda áfram að lækka samhliða lækkunarferli stýrivaxta.

„Lækkun kröfunnar mun þó að öllum líkindum vera hægari þar sem mikill hluti lækkunarinnar er þegar kominn fram. Í lok 1. ársfjórðungs árið 2009 reiknum við með að krafa HFF14 verði nálægt 5% og að krafa HFF44 verði nálægt 4%.“

Þá gerir greiningadeildin einnig ráð fyrir því að ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækki á næstu vikum og segir greiningadeildin forsendur sínar vera að lækkunarferli stýrivaxta hefjist fyrr og verði hraðara en áður var spáð.