Aðgerðir til að víkka starfsheimildir Íbúðalánasjóðs eru jákvæðar og munu koma sér vel fyrir heimilin.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Þar segir að í niðursveiflu eins og líklegt er að víð séum að sigla inn í er mikilvægt að skaði heimilanna verði sem minnstur.

„Niðursveiflur í hagkerfum sem rekja má til niðursveiflu á húsnæðismarkaði eru gjarnan bæði dýpri og lengri en niðursveiflur sem snerta ekki húsnæðismarkaðinn,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

„Aðgerðir stjórnvalda til að bægja erfiðleikum á fjármálamarkaði frá húsnæðismarkaði og þar með heimilunum dregur því úr hættu á miklum og löngum samdrætti í hagkerfinu. Það er forsenda þess að hjól efnahagslífsins geti tekið að snúast á ný þegar yfirstandandi öldurót lægir.“

Mikið framboð íbúðabréfa væntanlegt

Í Morgunkorni Glitnis er meðal annars fjallað um fjármögnun Íbúðalánasjóðs (ÍLS) á yfirtöku húsnæðislána sem Greining Glitnis segir að væntanlega verði mætt með aukinni útgáfu íbúðabréfa.

Samkvæmt tölum Seðlabankans um bankakerfi námu verðtryggð húsnæðislán bankanna tæplega 500 milljörðum króna  í lok ágúst.

„Ef stærstur hluti þeirra lána verður fluttur undir hatt ÍLS má reikna með miklu framboði nýrra íbúðabréfa á næstu dögum og vikum. Væntingar um aukið framboð íbúðabréfa kom strax fram í kröfuþróun en krafa íbúðabréfa hækkaði strax í upphafi dags um 23-98 punkta,“ segir í Morgunkorni.