„Sagan vinnur ekki með Seðlabankanum og trúverðugleiki peningastefnunnar er lítill. [...] Alls er óvíst er hvort að peningamálastefna Seðlabankans nái að klára annan sjö ára áfanga en umræða um aðrar lausnir er hávær um þessar mundir. Umræðan um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar byggir m.a. á lélegum árangri peningastefnunnar hér á landi. Ljóst er að saga peningastefnunnar síðustu sjö árin kann að hafa mikil áhrif á framtíð og hlutverk bankans,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Þar kemur fram að í dag er sjö ára afmæli peningamálastefnu Seðlabanka Íslands en þann 27. mars 2001 tók Seðlabankinn upp verðbólgumarkmið. Samhliða voru vikmörk gengisstefnunnar afnumin og krónunni hleypt á frjáls flot en um leið  varð krónan minnsti flotgjaldmiðill í heimi.

„Undanfarin sjö ár hefur meginmarkmið Seðlabankans verið að viðhalda verðstöðugleika og halda tólf mánaða verðbólgu sem næst 2,5%. Samhliða því að taka upp verðbólgumarkmið hætti Seðlabankinn að nota gengi krónunnar sem millimarkmið og akkeri peningastefnunnar. Þá hlaut Seðlabankinn fullt sjálfstæði frá stjórnvöldum til að vinna að verðbólgumarkmiðinu og svigrúm til beita til þess tækjum sínum án utanaðkomandi þrýstings pólitískra valdhafa,“ segir í morgunkorni Glitnis.

Næst hæstu stýrivextir í heimi

Á þessum tímamótum hafa stýrivextir hér á landi aldrei verið hærri og standa nú í 15% og eru hvergi hærri í hagkerfum með þróaðan fjármálamarkað að Tyrklandi undanskildu þar sem vextir eru 15,25%.

Undanfarin sjö ár hafa stýrivextir Seðlabankans verið að meðaltali 9%  en á lægst hafa vextirnir farið niður í 5,3% á tímabilinu en það vaxtastig var í gildi lungað af árinu 2003 og fram á vor árið 2004.