„Á morgun verður [...] vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans sem var fyrir löngu ákveðinn og nú má spyrja sig hvaða merkingu dagurinn hefur þegar ljóst er að það er ekki í höndum bankans að ákveða vexti.“

Þetta segir Greining Glitnis í Morgunkorni í morgun.

Þar segir greiningardeildin að hér á landi sé komin „áhugaverð staða“ í peningastjórnun hér á landi þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) hefur í samvinnu við ríkisstjórnina tekið við stjórnun peningamála, a.m.k tímabundið.

Þannig hafi stýrivextir til að mynda hækkaðir úr 12% í 18% í síðustu viku í takt við viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og IMF

„Ljóst er að bankinn vill ekki setja hugsanlega lánveitingu IMF í uppnám og mun því halda vöxtum óbreyttum,“ segir í Morgunkorni.

„Engin óvissa virðist um það og vaxtaákvörðunardagurinn að því leytinu til óþarfur.“

Greining Glitnis segir hins vegar að áhugavert verði að heyra umræðu bankastjóra Seðlabankans um stöðu bankans í þessu nýja umhverfi.

„Einnig verður áhugavert að sjá efnahagsspá Seðlabankans sem verður birt á morgun ásamt þeim ferli stýrivaxta sem talinn er að muni stuðla að því að ná verðbólgumarkmiði bankans á næstu misserum,“ segir í Morgunkorni.

„Mun þar eflaust felast í forsendum eitthvað af þeim aðgerðum sem ráðast á í hér á næstu misserum til úrlausnar banka- og gjaldeyriskreppunni. Kann spáin þannig að gefa einhverjar vísbendingar um innihald ofangreindrar viljayfirlýsingar IMF og ríkisstjórnarinnar sem annars er trúnaðarmál þar til framkvæmdastjórn sjóðsins hefur samþykkt lánveitinguna.“

Þá telur Greining Glitnis líklegt að í viljayfirlýsingunni felist afturhvarf til flotgengis og sjálfstæðs seðlabanka á verðbólgumarkmiði af einhverju tagi eins fljótt og það er talið gerlegt.