Þjóðaratkvæðagreiðslan sem fram fer um Iceseave nú snýst um tvo kosti og talsvert ólíka þeim sem þjóðin kaus um í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave 7. mars í fyrra. Annars vegar er það að staðfesta þau lög sem heimila fjármálaráðherra að skrifa undir þá samninga sem nú liggja fyrir um lausn Icesave deilunnar og eru mun hagstæðari en fyrri samningar. Hins vegar er það að fara dómstólaleiðina til að leiða þessa deilu til lykta, en bæði íslensk og hollensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að samningaleiðin verður ekki fær ef íslenska þjóðin synjar lögunum nú. Við þjóðaratkvæðagreiðsluna í fyrra lá hins vegar fyrir vilji íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda að fara samningaleiðina að nýju og reyndar lágu þá þegar fyrir drög að mun hagstæðari samningum en þeir sem var verið að kjósa um.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Umfjöllun greiningarinnar í heild:

Nei merkir dómstólaleiðin

„Ef niðurstaðan verður nei í þjóðaratkvæðagreiðslu liggur fyrir að dómstólaleiðin verður farin. Í því má bera niður í nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar í meðförum þings á málinu nú um þá leið. Þar segir að dómstólaleiðin tryggi rétta lögfræðilega niðurstöðu þó að vafi leiki á að hún tryggi hagstæðustu niðurstöðu fyrir Ísland. Skiptar skoðanir eru á því meðal lögfræðinga hver líkleg dómsniðurstaða yrði í málinu. Jafnvel þótt dómsmál vinnist er kostnaður í því fólginn að fara dómstólaleiðina og dragist dómsmálið á langinn mun óvissan ríkja lengur og tjónið aukast sem af óleystri deilunni hlýst. Málið gæti einnig tapast sem setti að öllum líkindum Ísland í verri samningsstöðu en nú er fyrir hendi og leiddi til óhagstæðari niðurstöðu. Þá verður einnig að hafa í huga að áfellisdómur gæti haft neikvæð áhrif á samskipti Íslands við aðrar þjóðir. Víst má telja að frestun lykta deilunnar hefði einnig áhrif á möguleika ríkissjóðs, sveitarfélaga og fyrirtækja til að sækja lánsfé á erlenda lánamarkaði. Jafnframt er hugsanlegt að ágreiningur um fullnustu af Íslands hálfu í kjölfar áfellisdóms í samningsbrotamáli gæti haft áhrif á EES-samninginn gagnvart Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum.

Varðandi dómstólaleiðina má einnig geta þess að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur þegar stofnað til samningsbrotamáls, studd af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Íslandi sé skylt að ábyrgjast greiðslu rúmlega 20.000 evra til hvers innstæðueiganda. Er það álit stofnunarinnar að á aðildarríkjum EES hvíli sú skylda að sjá til þess að það tryggingakerfi sem komið er á fót á grundvelli tilskipunarinnar um innistæðutryggingar skili innstæðueigendum þeirri lágmarkstryggingu sem hún mælir fyrir um undir hvaða kringumstæðum sem er. Lágmarkstrygging við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi er metin á 2,350 milljarða punda og á 1,329 milljarða evra í Hollandi. Það jafngildir samtals 674 milljörðum króna miðað við sölugengi gjaldmiðlanna 22. apríl 2009 en kröfurnar í bú bankans voru miðaðar við gengi þann dag.

Í áliti meirihluta fjárlaganefndar segir að dómar EFTA-dómstólsins í samningsbrotamálum sem ESA höfðar eru bindandi fyrir íslenska ríkið og ríkisstjórnin er á grundvelli EES-samningsins skuldbundin til að hlíta niðurstöðu dómstólsins og bregðast við henni með viðeigandi hætti. Að öðrum kosti væri samstarfið innan EES í uppnámi. Ef óhagstæð niðurstaða fengist í dómsmáli gætu Bretar og Hollendingar væntanlega byggt kröfur sínar beint á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta eins og þau bæri að túlka í ljósi niðurstöðu EFTA-dómstólsins og krafist greiðslu úr hendi íslenska ríkisins og fylgt þeirri kröfu eftir fyrir íslenskum dómstólum. Einnig gætu þeir á grundvelli niðurstöðu EFTA-dómstólsins krafist skaðabóta úr hendi ríkisins á þjóðréttarlegum grundvelli.

Já er samningaleiðin

Hvað varðar hinn kostinn, þ.e. að samþykkja frumvarpið, má geta þess að það er mat Seðlabanka Íslands og fleirri aðila að hinir nýju Icesave-samningar séu töluvert hagstæðari en fyrri samningar. Núvirði skuldbindingar íslenska ríkisins vegna samkomulagsins er að mati Seðlabankans um 69 milljarðar kr. eða sem nemur 4,3% af áætlaðri landsframleiðslu ársins 2010. Þrátt fyrir að hér sé um miklar fjárhæðir að ræða og óvissa nokkur um framtíðina er það mat bankans að væntanlega muni margt vinnast með samkomulaginu, ekki síst bætt aðgengi að alþjóðlegum fjármálamarkaði og hraðari endurreisn atvinnulífsins. Að því viðbættu að niðurstaða EFTA-dómstólsins í hugsanlegum málaferlum vegna Icesave-deilunnar gæti orðið Íslandi í óhag telur Seðlabanki Íslands sterk rök hníga til þess að leysa beri deiluna um uppgjör Icesave-reikninga Landsbanka Íslands með þeim hætti sem nú er lagt til að gert verði. Því má síðan bæta við að í yfirlýsingu forsetans sem birt var nú um helgina segir að þótt hinir nýju samningar feli í sér töluverða óvissu eru þeir annarrar gerðar en hinir fyrri, hagstæðari á margan hátt og fjárhagslegar skuldbindingar svo miklu minni að munurinn nemur risavöxnum upphæðum; hin erlendu aðildarríki gangast einnig við ábyrgð.“