Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka stýrivexti bankans um 1 prósentustig á næsta vaxtaákvörðunardegi, þann 22. september næstkomandi.

Við þetta lækka vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana í 4,5% og vextir á lánum gegn veði til sjö daga í 6,0%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en greiningardeildin segir að þannig muni Seðlabankinn halda áfram vaxtalækkunarferli sínu en við síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar ákvað nefndin að lækka vexti um 1 prósentur.

„Líkt og í mörgum fyrri yfirlýsingum lýsti peningastefnunefndin því yfir eftir ákvörðun sína síðast að héldist gengi krónunnar stöðugt eða styrktist, og verðbólga hjaðnaði eins og spáð er, ættu forsendur fyrir áframhaldandi slökun peningalegs aðhalds að vera til staðar,“ segir í Morgunkorni.

„Viðskiptavegið meðalgengi krónunnar hefur hækkað um ríflega prósent frá vaxtaákvörðun nefndarinnar 18. ágúst síðastliðinn. Hefur gengi krónunnar hækkað þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi á tímabilinu hafið kaup á gjaldeyri til að efla þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er fenginn að láni. Gjaldeyrishöftin, afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd ásamt vaxtamun við helstu viðskiptalönd Íslands hefur haldið áfram að styrkja krónuna.“

Þá segir Greining Íslandsbanka að verðbólgan hafi einnig haldið áfram að hjaðna, við síðustu vaxtaákvörðun stóð verðbólgan í 4,8% en er nú 4,5%. Þegar ekki er tekið tillit til áhrifa óbeinna skatta minnkaði verðbólgan á þessu tímabili úr 4% niður í 3,8%.

„Líkur eru á því að verðbólgan hjaðni áfram á næstunni og má reikna með því að hún verði komin niður í  2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir mitt næsta ár og fyrr ef frá eru talin áhrif óbeinna skatta,“ segir í Morgunkorni.

Þá segir Greining Íslandsbanka að gera megi ráð fyrir því að Seðlabankinn haldi áfram að lækka vexti á næstunni, en þó með þeim skorðum sem uppbygging fjármálakerfisins og áætlun um afnám gjaldeyrishafta fyrir lok efnahagsáætlunarinnar í ágúst 2011 setja vaxtastefnunni.

Þannig spáir greiningardeildin því að veðlánavextir bankans verði komnir niður í 5% í lok árs en á árinu eru eftir þrír vaxtaákvörðunardagar. Þá megi reikna má með því að nefndin ákveði að lækka vexti bankans enn frekar á næsta ári eða niður í 4,5%