Greiningardeild Kaupþings gerir ráð fyrir 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs í júlí. Gangi sú spá eftir verður 12 mánaða verðbólga í mánuðinum 13,2%.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að hækkun á liðnum ferðir og flutningar vegi þyngst í hækkuninni, þrátt fyrir að lækkun á heimsmarkaðsverði olíu nýverið gæti dregið eitthvað úr þeim áhrifum. Einnig er búist við töluverðum hækkunum á húsnæðislið, en aðrir undirliðir en húsnæðisverðið sjálft toga liðinn upp.

„Verðþróun næstu mánaða verður ólík eftir geirum að mati Greiningardeildar. Þróun mála að undanförnu, s.s. gengisveiking og hrávöruverðshækkanir, hafa komið niður á framlegð fyrirtækja sem hvetur þau til verðhækkana. Í þeim vöruflokkum sem neytendur eru næmir fyrir verðbreytingum, t.d. í tilviki bifreiða, bjóða aðstæður hins vegar ekki upp á miklar verðhækkanir. Heimilin í landinu eru farin að halda fastar um pyngjuna og fresta kaupum á ýmis konar neysluvörum. Þetta mun halda aftur af verðbólguþrýstingi í neysluvarningi á næstu mánuðum,“ segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.