Greiningadeild Landsbankans gerir ráð fyrir að verðbólga frá upphafi til loka þessa árs verði 8,4% og gerir ráð fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist um mitt ár 2009. Þó spáir greiningadeildin að verðbólga muni hækka áður en hún lækki á ný.

„Vegna hárrar verðbólgu í árslok reiknum við með að samið verði um nokkra viðbótarhækkun launa við endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í febrúar á næsta ári,“ segir í skýrslu greiningadeildar LÍ.

„Verðbólguálag til 4 ára fór hæst í 8% í lok mars og hafði þá hækkað nær stöðugt frá ársbyrjun þegar það var 3,4%. Markaðsvextir gefa því til kynna að fjárfestar telji engar líkur á að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans náist í bráð. Snarpt fall íslensku krónunnar ræður hér mestu, en fréttir síðustu daga benda til þess að gengislækkunin muni skila sér hratt í verð innfluttra vara. Veruleg hætta hefur skapast á því að verðbólguvæntingar fyrirtækja og almennings hækki til framtíðar, en slík þróun getur leitt til þess að verðbólga haldist há lengur en hér er spáð,“ segir jafnframt í skýrslunni.

Fasteignaverð dregur úr verðbólgu en talið að krónan muni styrkjast

Þá telur greiningadeildin að fasteignaverð komi til með að draga úr verðbólgu á næstu mánuðum „í stað þess að vera helsta orsök hennar eins og raunin hefur verið síðustu misseri,“ eins og það er orðað í skýrslu greiningadeildar. Greiningadeildin segir að spá sín byggi á þeirri forsendu að krónan veikist ekki frekar.

„Auk þess gerir grunnspá okkar ráð fyrir því að Seðlabankinn muni fljótlega treysta aðgang íslenskra banka að erlendu lausafé og að krónan geti í kjölfarið styrkst tímabundið frá núverandi gildi.“

„Í fráviksspá gerum við ráð fyrir að stjórnvöld grípi ekki tímanlega til viðeigandi aðgerða og að krónan haldist áfram veik (sveiflist í kring um 155 vísitölustig). Slík gengisþróun þýðir mun meiri verðbólgu, eða 13% þegar mest lætur í sumar. Við slíkar aðstæður eykst hætta á því að háar verðbólguvæntingar festist í sessi og að verðbólga verði viðvarandi mikil. Í fráviksspánni gerum við engu að síður ráð fyrir að það takist að koma böndum á væntingar,“ segir í skýrslu greiningadeildar.