Greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir meiri lækkun verðbólgu í maí en raun ber vitni.

Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun hækkaði vísitalan neysluverðs um 1,13% frá fyrri mánuði sem þýðir að 12 mánaða verðbólga mælist nú 11,6% og lækkar um 0,3 prósentustig frá því í apríl.

Greiningaraðilar höfðu aftur á móti gert ráð fyrir 10,7% - 10,9% verðbólgu í maí.

IFS greining gerði ráð fyrir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs þannig að 12 mánaða verðbólga yrði 10,7%. IFS tók þó fram í spá sinni að veiking krónu og lækkun húsnæðisverðs myndi togast á í næstu mælingum á vísitölu neysluverðs.

Greining Íslandsbanka gerði ráð fyrir að vísitalan neysluverðs myndi hækka um 0,4% í maí þannig að 12 mánaða verðbólga yrði 10,8%. Þá gerði Landsbankinn ráð fyrir því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,5% þannig að 12 mánaða verðbólga yrði 10,9%.

Allir greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir hækkandi eldsneytisverði en verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 4,9% í maí. Hins vegar virðist sem svo að greiningaraðilar hafi gert ráð fyrir hraðari lækkun á hinum ýmsu vöruflokkum, svo sem innfluttum vörum.