Uppgjör Icelandair Group á öðrum ársfjórðungi var mjög gott og ekkert lát virðist vera á uppgangi félagsins, að mati greiningardeildar Arion banka. Greiningardeildin metur heildarvirði félagsins á 336 milljónir dala, eða um 40 milljarða króna. Það gerir virði hvers hlutar um 8,15 krónur.

Þetta kemur fram í nýrri fyrirtækjagreiningu greiningardeildar Arion banka sem ætluð er fagfjárfestum. Gengi bréfa í Icelandair síðasta fimmtudag, daginn áður en greining Arion kom út, var 7,05 krónur á hlut. Virðismatsgengi Arion er því rúmlega 15% hærra en gengi bréfanna á fimmtudag. Hlutabréf í Icelandair standa í dag í um 7,10 krónur á hlut.

Spá um EBITDA hagnað félagsins hefur verið uppfærð af Arion banka og er nú búist við að hann nemi um 114 milljónum dollara á þessu ári. Helstu áhættuþættir í matinu eru sagðir vera aukið framboð stóru flugfélaganna á flugleið yfir Atlandshaftið og sú staðreynd að flugrekstur sé í grunninn sveiflukenndur bransi þar sem aukið framboð samkeppnisaðila sé versti óvinurinn.