Greiningardeild Landsbankans spáir 1% hækkun verðlags í ágúst en gangi spáin eftir eykst 12 mánaða verðbólga í 14,7% samanborið við 13,6% í júlí.

Þetta kemur fram í nýrri verðbólguspá bankans en þá telur Greiningardeildin að 12 mánaða verðbólga nái hámarki í ágúst en að hratt muni draga úr verðhækkunum þegar útsölulok eru gengin yfir og krónan hefur brotist út úr gengislækkunarfasa síðustu mánaða, eins og það er orðað í verðbólguspá Greiningardeildarinnar.

„Við eigum von á því að verðbólga mælist um 12% frá upphafi til loka þessa árs en stærstur hluti þeirrar hækkunar er þegar kominn fram,“ segir í verðbólguspánni.

„Verðbólga næstu 12 mánuði verður ríflega 5% að því gefnu að forsendur okkar um launa- og gengisþróun gangi eftir. Samkvæmt spá okkar verður verðbólga í námunda við verðbólgumarkmiðið í lok árs 2009.“