Frumvarp verður lagt fram á Alþingi um að létta greiðslubyrði einstaklinga vegna verðtryggðra lána. Þetta gæti lækkað greiðslubyrði þeirra um tíu til tuttugu prósent, sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á blaðamannafundi, sem nú stendur yfir, í Ráðherrabústaðnum.

"Við höfum líka beint því til Íbúðalánasjóðs að koma til móts við fólk sem á í greiðsluvanda," sagði hann enn fremur.

Geir sem og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra kynntu á fundinum ýmsar lagabreytingar sem lagðar verðar fram á Alþingi vegna ástandsins í efnahagslífinu.

Barnabætur greiddar út mánaðarlega

Til stendur meðal annars að gera breytingar varðandi barnabætur. Þær verða greiddar út mánaðarlega í stað þess að greiða þær út á þriggja mánaða fresti. Þá verður ekki heimilt fyrir ríkissjóð að skuldajafna vegna barnabóta og vangoldinna opinberra gjalda.

Geir sagði aðspurður að ekki lægi fyrir hvað þessar aðgerðir kostuðu. Kostnaður væri þó óverulegur.