Tilsjónarmenn með greiðslustöðvun Kaupthing Singer & Friedlander gera nú ráð fyrir tvöfalt meiri greiðslum til eigenda skuldabréfa en ætlað var í maí. Í maí gerðu þeir ráð fyrir að greiða 10% slíkra krafna en nú er gert ráð fyrir 20%, eða 250 milljónum punda. Þetta kemur fram í Times Online.

Haft er eftir talsmanni Ernst & Young, sem hefur tilsjón með greiðslustöðvuninni, að búið sé að samþykkja kröfur eigenda skuldabréfa með breytilegum vöxtum.  Ekkert sé hægt að segja fyrir um stöðu annarra lánardrottna, en sumum mun þó hafa verið hafnað.

Þetta eru fyrstu greiðslurnar eftir að bankinn fór í greiðslustöðvun en tilsjónarmenn segjast vonast til að geta greitt meira út síðar á árinu.