Goldman Sachs fékk 550 milljóna dala sekt fjármálaeftirlits í liðnum mánuði, en flestir eru sammála um að það sé vel sloppið hjá fjárfestingarbankanum. Hann stendur sterkari eftir en ekki er öll nótt úti enn.

Menn supu hveljur í síðasta mánuði þegar tilkynnt var að bandaríski bankarisinn Goldman Sachs (GS) hefði náð sátt við bandaríska fjármálaeftirlitið (SEC) um að greiða 550 milljónir Bandaríkjadala (jafnvirði ríflega 71 milljarði íslenskra króna) í sekt vegna ónægrar upplýsingagjafar til viðskiptavina sinna í aðdraganda fjármálakreppunnar.

Þetta er langhæsta sekt, sem bandarískri fjármálastofnun hefur verið gert að greiða, sú langhæsta í heimi raunar. Robert Khuzami, yfirmaður löggæsludeildar SEC, sparaði ekki stóru orðin, sagði að GS hefði „goldið dýru verði“ fyrir viðskiptahætti sína og að fyrirtæki á Wall Street hefðu þarna fengið „ærlega ráðningu“. Þetta var dyggilega endurómað í fjölmiðlum, enda mikill pólitískur þrýstingur á að orsakavaldar kreppunnar fengju að kenna á því.

Sektin sigur Goldman Sachs

Markaðurinn brást hins vegar þveröfugt við, hlutabréfaverð GS hækkaði umsviflaust um 4% og jók markaðsvirði bankans um milljarð dala. Ályktunin var augljóslega sú að GS hefði náð einstaklega góðum samningi við SEC.

Sú ályktun er ekki langsótt. Málatilbúnaður SEC bar í upphafi með sér að málið var grafalvarlegt, en eftirlitið gaf bankanum að sök að hafa villt um fyrir viðskiptavinum sínum í miðlun undirmálsveðlána, eitraðra skuldabréfavöndla, skuldatrygginga og helstu ógæfupappíra liðinna ára. Umrædd viðskipti námu milljörðum dala og samband GS við helstu vogunarsjóði heims í húfi.

Þó að 550 milljónir dala séu ekki skiptimynt, jafnvel ekki fyrir Goldman Sachs, er rétt að hafa í huga að bankinn borgar æðstu stjórnendum sínum iðulega 50 milljónir dala á ári. Sektin kom því aðeins mátulega við pyngjuna. Það er því ekki að undra þó sumir segi að Lloyd Blankfein forstjóri GS hafi grátið alla leiðina í bankann með sektarkröfuna í annari og syndaaflausnina í hinni.

-Nánar í Viðskiptablaðinu