Gréta Ingþórsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefur ákveðið að gefa kosta á sér í 4.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna alþingiskosninganna í apríl.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grétu.

„Um þessar mundir eru tímamót á flestum sviðum íslensks samfélags. Í því felast mikil tækifæri og mikil áskorun fyrir stjórnmálamenn,“ segir Gréta í tilkynningunni.

„Ég hef áhuga á að taka þátt í endurreisn samfélagsins og vinna að henni á nýjum forsendum en með virðingu fyrir menningararfi okkar og sögu. Nauðsynlegt er að búa atvinnulífinu þannig skilyrði að það geti vaxið og dafnað, skapað störf og staðið undir þeirri samhjálp sem við viljum geta veitt og gengið að þegar þörf krefur. Það verður á brattann að sækja næstu mánuði og misseri en með réttum áherslum, raunsæi og íslenskum kjarki verðum við von bráðar í sókn en ekki vörn.“

Gréta var aðstoðarmaður forsætisráðherra frá júní 2007 til janúar 2009. Tvö kjörtímabil, frá 1999 til 2007, var hún framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna. Hún var útgáfustjóri nýrra námskráa í menntamálaráðuneytinu árið 1999 og vann á Morgunblaðinu frá 1985 til 1998, lengst af sem blaðamaður.

Hún varð stúdent frá MR 1986, er með BA-próf í þýsku frá Háskóla Íslands og er í MA-námi í hagnýtum hagvísindum við Háskólann á Bifröst.

Gréta er í sambúð með Gísla Hjartarsyni verktaka. Þau eiga þrjú börn, þar af tvö á lífi.